Færsluflokkur: Bloggar

Látið kvikindin þrífa þetta sjálfa, þá læra þeir hugsanlega eitthvað!

Er þetta ekki sami hópurinn og búinn er að merkja sér hálfa borgina?

Merkingar út um allan Grafarvog eru svipaðar og má auk þess finna á fleiri stöðum. Það er aldeilis ótrúlegt hvað svona lýður leggur á sig til að eyðileggja eigur annarra. Þessir auðnuleysingjar hafa greinilega ekkert fyrir stafni og því fer framkvæmdaþörfin í þennan farveg. Þetta ber einnig uppeldinu vitni og ættu foreldrar viðkomandi að hugsa sinn gang alvarlega.

Ég mæli með því að viðkomandi verði látnir þrífa upp eftir sig ósómann. Það ætti að duga þeim sem verkefni í nokkrar vikur og hugsanlega myndu þeir læra eitthvað af því, þótt ótrúlega hljómi. Trúlega yrði það í fyrsta sinn sem viðkomandi ynnu ærlegt handtak. Þá á náttúrulega að láta þá borga bæði skaðabætur og sektir.

Í augum leikmanns virðist megnið af veggjakroti út um allan bæ vera með sama eða svipuðum blæ sem bendir til þess að ekki sé um mjög stóran hóp að ræða. Þetta unga fólk sem virðist halda að því leyfist að ganga um og fremja spjöll á eigum annarra þarf að stoppa sem allra fyrst því þessi sóðaskapur er óþolandi. Yfirvöld hljóta að leggja áherslu á að uppræta þennan ósóma sem fyrst því hér er um eignatjón að ræða sem ella verður eingöngu bætt með fjárútlátum eigendanna.


mbl.is Krotað á veggi fjölda húsa í nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað með hraðakstur í íbúðahverfum?

Ég var að velta því fyrir mér í gærkvöldi hvað ég sakna þess að sjá ekki lögreglubíla meira en raun ber vitni við eftirlit inni í íbúðahverfum. Maður sér lögregluna oft við hraðamælingar á helstu umferðaræðum (sem er gott) en það er jafnvel enn meiri þörf á eftirliti innan hverfanna þar sem börn og aðrir gangandi vegfarendur eru á ferð. Í mínu hverfi, Grafarvogi, er það afar sjaldgæf sjón að sjá annað en "sofandi lögregluþjónana" eða hraðahindranir. Hraðakstur er þessa dagana stundaður af kappi á Fjallkonuvegi, nánar tiltekið innan við Foldaskóla þar sem hámarkshraði er 30 km/klst. Ég hef hins vegar ekki séð lögreglubíl á Fjallkonuvegi í meira en mánuð.

Allir í áfengið - eða hvað!

Nýafstaðinn landsfundur Sjálfstæðisflokks kemst að athyglisverðri niðurstöðu, ef marka má ályktun fundarins um viðskipta- og neytendamál.

Þar er meðal annars að finna eftirfarandi : "Landsfundur leggur áherslu á að einkarétti ríkisins á verslun með áfengi verði aflétt. Eðlilegt er að hægt sé að kaupa bjór og léttvín utan sérstakra áfengisverslana, t.d. í matvöruverslunum. Lagt er til að áfengiskaupaaldur verði lækkaður í 18 ár. Landsfundur er andvígur höftum á mál- og ritfrelsi og leggst því gegn banni á auglýsingum og reglum sem hefta umfjöllun um neysluvörur og þjónustu s.s. heilbrigðisþjónustu".

Samkvæmt þessu er það ætlan flokksins að byrja á því að dreifa bjór og léttvíni í allar matvöruverslanir, bensínstöðvar og aðrar slíkar verslanir og...já lækka síðan áfengiskaupaaldurinn í 18 ár. Allir í áfengið, eða hvað? Hér skal ekki ráðið nánar í síðasta hluta þessarar greinar, en ekki verður betur séð en að þar sé verið að tala fyrir afnámi hafta á auglýsingar á áfengi (sem er neysluvara) ásamt öðru.

Til að klykkja út kom það síðan fram í viðtölum við formann flokksins, Geir Hårde að einlægur vilji flokksins væri að fá heilbrigðisráðuneytið á næsta stjórnartímabili.

 Þeir sem áhuga hafa á að kynna sér ályktun landsfundarins nánar geta smellt hér að neðan.

http://www.xd.is/xd/skipulag/landsfundur/?ew_news_onlyarea=newsarea&ew_news_onlyposition=4&cat_id=33113&ew_4_a_id=276572

Skál í boðinu !


Einfaldur Össur

Ég var að glugga í Fréttablað dagsins núna í hádeginu og staldraði við á blaðsíðu 34 þar sem aðalfréttin er rífleg launahækkun Páls Magnússonar, nýráðins framkvæmdastjóra RUV ohf.

Skv. fréttinni er Össur Skarphéðinsson nefnilega núna búinn að fatta hvers vegna Páll hefur verið einarður stuðningsmaður þess að breyta RUV í opinbert hlutafélag frá því hann tók við sem útvarpsstjóri.

"Nú skil ég" á Össur að hafa sagt, "barátta Páls virðist hafa haft ákveðinn tilgang"

Sem sagt barátta Páls gekk þá út á það að ná sér í hærri laun en ekki að bæta rekstur RUV eða neitt af því sem rök menntamálaráðherra greindu þegar frumvarpið var flutt í þinginu samkvæmt speki Össa. Vondur karl Páll.

Ljóst er að menn hafa hver sína skoðun á breytingu RUV í opinbert hlutafélag. Og menn hafa sínar efasemdir um hvort það sé til bóta eða ekki.

En, ég spyr, á hvaða skeri er Össur búinn að vera ef hann er núna fyrst að átta sig á því að með breytingu úr ríkisfyrirtæki eða ríkisstofnun í hlutafélag komi meðal annars launakjör starfsmanna til með að breytast. Lá það ekki fyrir? Ekki hafa ríkisstarfsmenn hingað til flokkast til tekjuhárra einstaklinga er það? Og hvað með Pallann, hver er ekki að reyna að ná sér í launahækkun nú til dags?

Lifið heil. 


Hrós til 365 miðla

Já, ég ætla að leyfa mér að hrósa 365 miðlum fyrir Hans Steinar Bjarnason íþróttafréttamann sem búinn er að vera allt of lengi bara í útvarpi.

Pilturinn, sem reyndar á ættir að rekja norður á Strandir, hefur staðið sig með einstakri prýði í flutningi íþróttafrétta í sjónvarpi að undanförnu.

Hans Steinar hefur einstaklega fágaða framkomu, flutningur hans á íþróttafréttum er bæði vandaður og vel unninn og síðast en ekki síst er hann afar vel máli farinn.

Til hamingju með Hansa - 365 miðlar!


Barnalegur Björn Ingi

Það er hálf grátlegt að lesa blogg Björns Inga Hrafnssonar í dag, en þar ræðir hann um síðbúna hefnd Steingríms J. Sigfússonar, sem að sögn Binga er mögulegur forsætisráðherra eftir tvo mánuði, fyrir það að bjórinn var leyfður 1. mars 1989. Færslu Binga má sjá hér: http://bingi.blog.is/blog/bingi/

Samkvæmt Binga var Grímur ósáttur við þá ákvörðun Alþingis að leyfa bjórinn og hefur að því er Bingi heldur fram leitað hefnda æ síðan. Loks um helgina á Grímur að hafa náð fram hefndum. Og með hverju, jú með því að stoppa af í þinginu frumvarp Guðlaugs Þ. um að leyfa sölu léttvíns og bjórs í almennum verslunum. Bingi klikkir út með því að spyrja hvort bjórinn verði þá bannaður aftur?

Ég spyr, eru einhver sárindi hér á ferð, eða hvað ætli valdi slíkum skrifum? Getur verið að Bingi hafi áhyggjur af örum vexti VG? Eða því að hans eigin flokkur er að hverfa?

Eða eru skrifin sett fram af málefnalegum ástæðum?

Síðast þegar ég vissi hugnaðist Framsókn ekki breytingar á fyrirkomulagi áfengissölu í landinu. Er það breytt?

Stuttbuxnagengi Sjálfstæðisflokks hefur hins vegar haft lítið að gera í þinginu löngum stundum og fannst einhverjum meðlima gengisins því tilvalið að snúa sér að slíku þjóðþrifamáli. Hafa þau því dundað sér við að búa til frumvarp um afnám einkaleyfis ÁTVR til sölu á léttvíni og bjór.

Frumvarpið er nú lagt fram í þriðja sinn, en í þetta skiptið komst það lengra en hin tvö fyrri. Munaði bara Steingrími J. að málið kæmi til annarrar umræðu í þinginu segir Bingi. Skyldi Grímur hafa álitið tíma þingsins betur varið í eitthvað annað, eða hefur Grímur ef til vill eitthvað fyrir sér í því að slíkt fyrirkomulag verði ekki skref til framfara?

Helstu rök fyrir því að leyfa eigi sölu léttvíns og bjórs í almennum verslunum hafa verið þau að ríkið eigi ekki að standa í rekstri sem aðrir geti séð um. Af hverju á ríkið ekki að standa í rekstri sem aðrir geta séð um? Hver segir að ríkið eigi ekki að standa í rekstri yfirleitt?

Er ríkið að standa sig illa í rekstri vínbúða? Nei.

Er ríkið að standa sig vel í rekstri vínbúða? Já.

Af hverju á þá að breyta?

Ef ánægja er með núverandi fyrirkomulag á þá á leggja það af?

Önnur rök hef ég heyrt sem ganga út á það að nauðsynlegt sé að geta gert heildarinnkaup á einum stað. Kaupa í matinn og kaupa vínið eða bjórinn um leið. Það er hægt í dag að kaupa vínið og bjórinn um leið og matinn. Til dæmis í Smáralind. Þar eru nokkrir metrar milli Hagkaupa og vínbúðarinnar. Þetta er líka hægt í Kringlunni þar eru nokkrir metrar milli vínbúðarinnar og Hagkaupa. Sömuleiðis í Spöng, þar eru nokkrir metrar milli vínbúðarinnar, Hagkaupa og Bónuss.

Svo mætti áfram telja. Mosfellsbær, Eiðistorg, Austurstræti - þar eru vínbúðir í nokkurra skrefa fjarlægð frá næstu matvöruverslun. hvert er þá vandamálið?

Ég væri hins vegar til í að lesa vangaveltur Binga um kosti og galla núverandi fyrirkomulags á áfengissölu á Íslandi og kosti og galla þess kerfis sem tæki við ef við breytum í stað þess að lesa eitthvert öfundarnöldur út í Grím hinn græna.

Lifið heil./p>


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband