19.3.2007 | 16:59
Barnalegur Björn Ingi
Það er hálf grátlegt að lesa blogg Björns Inga Hrafnssonar í dag, en þar ræðir hann um síðbúna hefnd Steingríms J. Sigfússonar, sem að sögn Binga er mögulegur forsætisráðherra eftir tvo mánuði, fyrir það að bjórinn var leyfður 1. mars 1989. Færslu Binga má sjá hér: http://bingi.blog.is/blog/bingi/
Samkvæmt Binga var Grímur ósáttur við þá ákvörðun Alþingis að leyfa bjórinn og hefur að því er Bingi heldur fram leitað hefnda æ síðan. Loks um helgina á Grímur að hafa náð fram hefndum. Og með hverju, jú með því að stoppa af í þinginu frumvarp Guðlaugs Þ. um að leyfa sölu léttvíns og bjórs í almennum verslunum. Bingi klikkir út með því að spyrja hvort bjórinn verði þá bannaður aftur?
Ég spyr, eru einhver sárindi hér á ferð, eða hvað ætli valdi slíkum skrifum? Getur verið að Bingi hafi áhyggjur af örum vexti VG? Eða því að hans eigin flokkur er að hverfa?
Eða eru skrifin sett fram af málefnalegum ástæðum?
Síðast þegar ég vissi hugnaðist Framsókn ekki breytingar á fyrirkomulagi áfengissölu í landinu. Er það breytt?
Stuttbuxnagengi Sjálfstæðisflokks hefur hins vegar haft lítið að gera í þinginu löngum stundum og fannst einhverjum meðlima gengisins því tilvalið að snúa sér að slíku þjóðþrifamáli. Hafa þau því dundað sér við að búa til frumvarp um afnám einkaleyfis ÁTVR til sölu á léttvíni og bjór.
Frumvarpið er nú lagt fram í þriðja sinn, en í þetta skiptið komst það lengra en hin tvö fyrri. Munaði bara Steingrími J. að málið kæmi til annarrar umræðu í þinginu segir Bingi. Skyldi Grímur hafa álitið tíma þingsins betur varið í eitthvað annað, eða hefur Grímur ef til vill eitthvað fyrir sér í því að slíkt fyrirkomulag verði ekki skref til framfara?
Helstu rök fyrir því að leyfa eigi sölu léttvíns og bjórs í almennum verslunum hafa verið þau að ríkið eigi ekki að standa í rekstri sem aðrir geti séð um. Af hverju á ríkið ekki að standa í rekstri sem aðrir geta séð um? Hver segir að ríkið eigi ekki að standa í rekstri yfirleitt?
Er ríkið að standa sig illa í rekstri vínbúða? Nei.
Er ríkið að standa sig vel í rekstri vínbúða? Já.
Af hverju á þá að breyta?
Ef ánægja er með núverandi fyrirkomulag á þá á leggja það af?
Önnur rök hef ég heyrt sem ganga út á það að nauðsynlegt sé að geta gert heildarinnkaup á einum stað. Kaupa í matinn og kaupa vínið eða bjórinn um leið. Það er hægt í dag að kaupa vínið og bjórinn um leið og matinn. Til dæmis í Smáralind. Þar eru nokkrir metrar milli Hagkaupa og vínbúðarinnar. Þetta er líka hægt í Kringlunni þar eru nokkrir metrar milli vínbúðarinnar og Hagkaupa. Sömuleiðis í Spöng, þar eru nokkrir metrar milli vínbúðarinnar, Hagkaupa og Bónuss.
Svo mætti áfram telja. Mosfellsbær, Eiðistorg, Austurstræti - þar eru vínbúðir í nokkurra skrefa fjarlægð frá næstu matvöruverslun. hvert er þá vandamálið?
Ég væri hins vegar til í að lesa vangaveltur Binga um kosti og galla núverandi fyrirkomulags á áfengissölu á Íslandi og kosti og galla þess kerfis sem tæki við ef við breytum í stað þess að lesa eitthvert öfundarnöldur út í Grím hinn græna.
Lifið heil./p>
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning